Endurmenntun

Lögð er áhersla á það að styrkja endurmenntun starfsmannahópsins og einstaklinga innan hans við þróunarvinnu tengda gerð skólanámskrár og mati á skólastarfi. Sérstök áhersla er lögð á endurmenntun starfsmanna vegna breyttra áherslna og fyrirmæla nýrrar námskrár.

Fjárveitingar til endurmenntunar sníða skólanum stakk. Reynt verður hér eftir sem hingað til að nýta fjármuni sem best, því eru starfsmenn hvattir til þátttöku í fjarnámi. Það er vilji sveitarfélagsins að auka framboð endurmenntunar á heimaslóð í því skyni að auðvelda þátttöku og spara fjármuni.

Áhersla er lögð á að starfsmenn geti sótt tilfallandi fræðslufundi og ráðstefnur á skólatíma. Æskilegt er að fleiri en einn starfsmaður sæki hvert námskeið til að styrkja breytingarferlið í kjölfarið.

Ætlast er til að starfsmenn sem sækja endurmenntun á vegum skólans segi samstarfsmönnum frá námskeiðinu á sérstökum fundum eða skili skólastjóra skýrslu sem aðrir starfsmenn hafa aðgang að. Þetta er m.a. gert til að miðla fróðleiknum til skólasamfélagsins og skapa þannig skilyrði til að festa jákvæðar breytingar í sessi.