Grunnskólinn að Hólum

Kennslufyrirkomulag 

Í þremur fyrstu tímnum hvers dags er nemendum  ekki skipt í samkennsluhópa heldur verða allir á einu vinnusvæði. Til að varpa örlitlu ljósi á það sem liggur að baki slíkra vinnubragða eru hér nokkur orð um það.

Einstaklingsmiðun náms hefur verið í þróun hér sem annarsstaðar síðustu misseri og þessi tilhögun er aðeins skref í þá átt að námið sé að nokkru leyti sérsniðið að þörfum hvers og eins nemanda. Jafnframt verður markvisst unnið að því að nemandi verði bæði meðvitaðri og ábyrgari um sitt eigið nám og eigi jafnvel kost á að hafa áhrif á framgang þess. Smærri skólar hafa verið í framvarðasveit kennsluhátta einstaklingsmiðunar vegna áralangrar reynslu af samkennslu bekkja.

Í tveimur samliggjandi stofum sem hægt er að opna á milli hafa nemendur merkt borð á 4 - 5 borða eyjum. Það eru vinnusvæði nemenda sem að miklu leiti stýra sínu námi sjálfir. Einu sinni í viku setjast nemendur með umsjónarkennara og fagkennurum og gera vikuáætlun sem þeir síðan vinna eftir. Sú kennsluaðferð að kennarinn standi við töflu eða miðli munnlega til nemenda er aldrei viðhöfð í þessu sameiginlega rými, enda gefur að skilja að það hefur eingöngu þær afleiðingar að trufla vinnufrið. Útilokað er að finna efni sem hentar þessum breiða hópi og raunar má sama segja um jafn stóran jafnaldrahóp enda hefur þróun í kennslufræðum miðað að því að hverfa frá þeim vinnubrögðum. Að sjálfsögðu þarf á stundum að hafa einhverja innlögn, svo sem stafainnlögn hjá þeim sem eru að læra lestur eða málfræðikynningu hjá nemendum sem lengra eru komnir á veg, svo einföld dæmi séu tekin. Hinn ótvíræði styrkur samkennslunnar vinnur þar með okkur þar sem kennari fer eingöngu með þá nemendur sem þurfa þessa innlögn, hvort sem þeir eru 6 ára, eða 10 ára, inn í annað rými og engin truflun hlýst af hjá þeim sem þurfa ekki á þeirri innlögn að halda. Hinir nemendur skólans nýta tímann á meðan við að sinna þeirri vinnu sem þeim hentar með aðstoð frá þeim kennurum sem eftir verða inni hjá hópnum. Sama á við um stærðfræði, ensku eða hvaðeina sem unnið er með. Með þessu móti nýtum við hverja kennslustund til hagsmuna fyrir hvern og einn nemanda og jafnframt nýtum við sérþekkingu kennara í sínu fagi með því að skipta með okkur verkum eftir sérsviðum.

Varðandi vinnufrið í svona stórum hópi kappkostum við að vinna sérstakalega með það og dyggðaþemun, sem nánar eru skýrð hér að neðan, verða á sínum stað þar sem m.a. umgengni og tillitssemi við aðra verða gefin góð skil.  Eins má gera ráð fyrir því að oft á tíðum verður hóður eða hópar nemenda  í innlögn á efni eða sérvinnu í öðru rými, svo ekki verða alltaf, og trúlega sjaldnast, allir nemendur skólans á sama tíma í stóra rýminu. Einstaklingar geta einnig fengið vinnuaðstöðu í öðru rými tilfallandi ef ástæða þykir.

Það er alls ekki hugmyndin að kasta þeim forréttindum smærri skóla að nemendur upplifi öryggi og vellíðan í litlum hópi, heldur eingöngu að tilhögun kennslunnar veiti kennurum meira svigrúm til samstarfs svo þeir geti beint kennslunni að hverjum og einum. Nemendur hafa áfram sinn umsjónarkennara sem heldur utan um nám þeirra og er tengiliður við foreldra varðand líðan og námsframvindu. Þessir umsjónarhópar fá einnig tíma í vinnuvikunni til að hittast í minni einingum og tengjast innbirðis og sínum umsjónarkennara.

Að lokum er rétt að ítreka að foreldrar eru ávallt velkomnir í heimsókn í skólann. Það verður kaffi á könnunni og eflaust hægt að spjalla við kennara milli kennslulota. Æskilegt er þó ef foreldrar vilja viðtal við umsjónarkennara að hafa samband og sammælast um tíma svo kennsla raskist sem minnst. Ef einhverjar spurningar vakna hikið þá ekki við að hafa samband og ræða málið. Gott samstarf foreldra og kennara er oftar en ekki lykillinn að farsælu og árangursríku skólastarfi.

Lífsleikniþema / dyggðaþemu

Áfram verður unnið að skipulagi tengdu lífleikninámi, sem styður skólastefnu okkar. Þar eru sameiginleg markmið í umgengisreglum, hegðunarþáttum og yfirleitt flestum þeim dyggðum sem prýða menn tekin fyrir í sameiginlegum samkomum. Samkomur þessar eru í þriðja tíma á miðvikudögum. Þá er lagt út frá hverju þema í 3 - 4 vikur. Unnin eru spjöld og áminningar í tengslum við hvert þema og safnað saman á frátekinn vegg sem tileinkaður er þessu verkefni. Áhersla er lögð á að allir starfsmenn skólans taki virkan þátt og að allir hjálpist að við að framfylgja meginþema hvers mánaðar og síðan áfram þó annað þema taki við. Umsjónarkennarar vinna að sjálfsögðu einnig meira eða minna að þessu efni ásamt öðru, með sínum hóp í umsjónarhópunum.

Dyggðum í hverju þema er skipt á umsjónarkennara sem hafa umsjón með samkomum þann mánuðinn, sjá um kynningu meðal starfsfólks og undirbúning síns þema. Skólaliði tekur þátt í undirbúningi ásamt umsjónarkennara.

Uppbygging samkomanna verður þannig að í upphafi ávarpar stjórnadi samkomuna og gjarnan sungið eitt til tvö lög. Þá tekur umsjónarkennari hvers þema við og kynnir eða ræðir viðkomandi dyggð. Ef við á er farið er yfir árangur síðustu viku og hvað betur megi fara. Því næst er kynnt áhersluatriði í viðkomandi dyggð næstu viku. Síðast en ekki síst þá er þetta vettvangur fyrir nemendur einn eða fleiri saman að koma fram og flytja ljóð, syngja, kynna verkefni, frumsamið efni eða annað sem tilefni er til. Í vetur verður sérstaklega unnið með það að segja sögu og hver og einn nemandi þarf að undirbúa og segja sögu í samverustund í vetur. Umsjónarkennarar fylja því eftir að nemendur komi reglulega fram og aðstoða við efnisval. Miðað er við að samkoma taki 15 til 20 mínútur.