Nýsköpunarkennsla

Í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt er nemendum kennd vinnubrögð við að þróa hugmynd að rekstri eða framleiðslu, alla leið frá hugmynd til markaðssetningar fullskapaðrar vöru.

Grunnnskólinn austan Vatna hefur verið í fremstu röð á landsvísu, á sviði kennslu í nýsköpun- og frumkvöðlamennt.   Þessi kennsla hefur farið fram í 5. – 10. bekk í mörg ár, en nú verður kennslan víkkuð enn frekar út, og verður öllum nemendum skólans, í 1. – 10. bekk, kennt í námsgreininni hér eftir. 

Stefnt er á að taka nýsköpunarkennsluna fyrir í þemavinnu í 1-2 vikur, þar sem stór hluti kennslu í skólanum verður helgaður þessarri námsgrein á þessu tímabili, og endað á sýningu með afurðum þemastarfsins.  Kennslan í þessarri námsgrein verður þannig fléttuð inn í kennslu flestra ef ekki allra námsgreina.  Þetta er starf í þróun, en hér á eftir sjást hugmyndir þær sem eru í gangi um starf vetrarins í einstökum árgöngum.

 

1. – 4. bekk

Hugsunarháttur nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar verður lagður inn og kenndur smátt og smátt, tekinn í skrefum, svo nemendur tileinki sér hugsunina eftir getu, aldri og þroska.   Þessi hugsunarháttur verði þeim því eðlilegur, að þau viti hvað hægt er að gera þegar maður fær góða hugmynd að vöru eða þjónustu.  Það verði áhersla á þarfaleit, hugmyndavinnu og módelsmíði í kennslunni. 

 

5. - 7.  bekk

Nýsköpunarþemu tekin fyrir frá hugmynd til hönnunar.  Verkefnin eru svo send í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna.  Svo er stefnan að útvíkka hugtakið og tengja nýsköpunina inn í sem flestar námsgreinar. Nemendur sjái möguleikana í því að fá góða hugmynd sem hægt er að nýta í rekstri, einnig að þau þjálfist í því að finna lausnir á minni háttar vandamálum í umhverfi sínu.  Hugmyndir verði ekki bara hlutbundnar, heldur stuðli einnig að jákvæðum hugsunum og bættu samfélagi í heimabyggð fólks.

 

8. – 10. bekk

Haldið verður áfram með starfið og byggt ofan á það sem nemendur hafa lært í námsgreininni á undanförnum árum.  Nemendum verða kennd fjölbreytt vinnubrögð við þróun hugmyndar og það að koma viðfangsefninu á framfæri.  Þetta getur verið til dæmis myndbandagerð og heimasíðugerð, og það að vinna með raunveruleg viðfangsefni úr samfélaginu og að fá kynningar hjá fólki úr atvinnulífinu.  Unnið verður með hönnun, með reyklausa verkefnið, endurnýtingu, rekstur kaffihúss, valgreinar, og starfskynningar.