Þróunarverkefni

Í skólanum eru unnin nokkur þróunarverkefni. Með þróunarverkefnum er átt við nýjungar, tilraunir og nýbreytni í námsefni, kennsluaðferðum, námsmati og skipulagi náms og kennslu í grunnskólum.

Námsmat

Með hugtakinu námsmat er yfirleitt átt við öflun upplýsinga um námsárangur og framvindu náms einstakra nemenda. Kennarar skólans vinna markvisst að því að endurskoða þær aðferðir sem hafa verið notaðar til þessa til að meta alhliða árangur nemenda á sem fjölbreyttastan hátt. Í kafla 4 er fjallað nánar um námsmat en jafnframt kemur skipulag námsmats fyrir í náms- og kennsluáætlunum hverrar námsgreinar.

Byrjendalæsi

Lestrarkennsluaðferðin byrjendalæsi hefur verið þróuð á vegum skólaþróunarsviðs kennaradeildar Háskólans á Akureyri á undanförnum árum í samvinnu við skóla á norðurlandi undir forystu Rósu Eggertsdóttur. Grunnskólinn austan Vatna hefur tekið þátt í verkefninu undanfarin tvö ár.

Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð ætluð til lestrarkennslu barna 1. og 2. bekk. Í samvirkum lestrarkennsluaðferðum eru hljóðaaðferðir og málheildaraðferðir felldar saman í eina. Við samsetningu byrjendalæsis var aðallega stuðst við vinnu fjögurra fræðimanna: Frost, Solity, Gudschinsky og Leimar. Ennfremur var sótt í smiðju NRP2000 þar sem kemur fram mikilvægi þess að kennsluaðferðir í lestri feli í sér nálgun sem nái til allra þátta móðurmálsins. Þannig er vinna með tal, hlustun, lestur og ritun felld í eina heild. Sértækir þættir móðurmálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði, setningabygging og málfræði eru tengdir inn í ferlið.

Meginmarkmið byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í lestri sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Þegar börn hefja nám í 1. bekk eru þau misjafnlega á vegi stödd varðandi lestur. Sum þekkja stafi, önnur eru farin að lesa og svo er hópur sem þarf að læra alla stafina og hvernig á að vinna með þá. Byrjendalæsi gerir ráð fyrir því að hægt sé að kenna börnum sem hafa ólíka færni í lestri hlið við hlið og því er lögð áhersla á hópvinnu um leið og einstaklingsþörfum er mætt.

Þróunarverkefnið Leikur og læsi

Þróunarverkefnið Leikur og læsi og er samstarfsverkefni Grunnskóla austan Vatna á Hólum og leikskólans Tröllaborgar á Hólum og hófst verkefnið haustið 2009. Verkefnið er fjögurra ára þróunarverkefni sem felst í því að setja fram markmið og þróunarferli læsis á fyrstu stigum lestrarnáms og þroskaþátta tengdu því. Þróunarferlið og markmiðin verða tengd við nokkurs konar ferilskrá sem kennarar nýta til að fylgjast með og skipuleggja nám einstaklinga á leikskóla og í yngstu bekkjum grunnskóla. Í ferilskránni verða gefin dæmi um  viðeigandi vinnubrögð við nám- og kennslu. Þá verður einnig gerð aðgerðaráætlun gagnvart nemendum í áhættuhópi vegna leshömlunar. Loks er gert ráð fyrir að kanna hver áhrif þessara vinnubragða er á læsisþróun barna. Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir kennari á Hólum heldur utan um verkefnið.

Markmið verkefnis:

  • Að setja fram áætlun um læsisnám- og kennslu frá leikskóla til grunnskóla
  • Að byggja upp lestrarvænt umhverfi í leik- og grunnskóla
  • Að hvetja börn og foreldra til lestrar
  • Að finna börn sem eru í áhættuhóp fyrir leshömlun sem fyrst og hefja snemmtæka íhlutun
  • Að skoða hvaða áhrif snemmtæk íhlutun og markviss vinna með lestur í leikskóla og grunnskóla hefur á lestrarnám barna
 

Útikennsla og skógarþema

Útikennsla er sú kennsla sem fram fer utan skólastofu. Það er hægt að nýta umhverfið/náttúruna til kennslu í nánast öllum greinum. Stefnt er að því að hver deild Grunnskólans austan Vatna komi sér upp kennslusvæði utandyra. Á Hofsósi mun útikennslan fara fram í næsta nágrenni skólans og á skógræktarsvæðinu austan við Hofsós, á Hólum fer hún að mestu fram í Hólaskógi og Sólgörðum fer útikennslan fram í skógræktarreit fyrir ofan skólann. Næstu árin verður lögð áhersla á að skipuleggja og hanna svæðin með nemendum samhliða því sem kennarar í sameinuðum skóla vinna náms- og kennsluáætlanir sem lúta að útikennslu. Útikennsla í náttúrunni býður upp á fjölbreyttari nálgun í kennsluháttum, hlutbundnari nálgun, aðra upplifun og aukið ímyndunarafl. Nemendur læra að bera virðingu fyrir náttúrunni og læra á umhverfið. Nemendur verða öruggari með sig í umhverfi sínu auk þess sem þeir læra að nám fer einnig fram utan veggja skólastofu. Í útikennslu felst einnig grenndarnám. Unnið er markvisst með þjóðsögur, sagnir, ljóð o.fl. sem tengist heimabyggð. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur kynnist örnefnum, kennileitum og umhverfi sínu á sem áþreifanlegastan hátt, t.d. með styttri og lengri vettvangsferðum, gönguferðum og útivist.