Áfallaráð

Áfallaáætlun

Áfallaáætlun skólans er sett fram svo að skýrt sé hvernig skuli bregðast við þegar válegir atburðir sem snerta nemendur eða starfsfólk skólans verða. Áfallaáætlunina á að nota sem gátlista þegar skipuleggja þarf áfallahjálp. Athuga ber að taka þarf tillit til aðstæðna hverju sinni þegar viðbrögð eru ákveðin. Mikilvægt er að starfsfólk skólans sé vel undir það búið að takast á við þá erfiðleika sem fylgja hinum ýmsu áföllum.

Áfallaráð

Í áfallaráði sitja skólastjóri, skólahjúkrunarfræðingur og sóknarprestur. Skólastjóri eða staðgengill hans er ábyrgur fyrir því að kalla saman áfallaráð og stýra vinnu þess og skipulagi.

Hlutverk áfallaráðs

Hlutverk áfallaráðs er að gera vinnuáætlun svo bregðast megi fumlaust og ákveðið við þegar áföll hafa orðið, s.s. bráð veikindi, alvarleg slys, dauðsföll eða aðrir atburðir sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu eða sorgarviðbrögð . Vinnuáætlunin þarf að vera skýr og afdráttarlaus um hver sinni hvaða hlutverki, í hvaða röð og hvernig beri að bregðast við. Mikilvægt er að huga að óskum fjölskyldna þeirra sem hlut eiga að máli hverju sinni. Við skipulag áfallahjálpar og viðbragða þarf að hafa í huga alla þá einstaklinga sem koma að starfsemi skólans s.s. nemendur, aðstandendur, kennara, stjórnendur og annað starfsfólk skólans. Áfallaráð skal sjá til þess að allt starfsfólk fái kynningu á því hvernig bregðast skuli við áföllum. Einnig þarf að sjá til þess að kennarar og annað starfsfólk sem að áfallahjálp vinnur fái stuðning og hjálp .

Áföll sem þessi áætlun nær til eru helst:

  • Alvarleg slys (nemenda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks skólans).
  • Alvarleg veikindi (nemenda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks).
  • Langvinnir sjúkdómar (nemenda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks).
  • Andlát (nemenda, aðstandenda þeirra, starfsfólks eða maka starfsfólks).

Áfallaráð skal funda strax og skólastarf hefst að hausti og athuga hvort breyting hafi orðið á aðstæðum nemenda eða starfsfólks vegna alvarlegra slysa, veikinda, dauðsfalla eða annarra áfalla. Áfallaráð ræðir þau áföll sem upp hafa komið og tekur ákvörðun um hvort eða til hvaða aðgerða skal gripið .