Stefna Grunnskólans austan Vatna

Hlutverk grunnskólans

Í lögum um grunnskóla nr. 66/1995 segir svo í 1. kafla, 2. grein, um hlutverk grunnskólans:

Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið. Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Grunnskólinn skal veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðla að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.

Framtíðarsýn

Grunnskólinn austan Vatna fylgir eftir framtíðarsýn skólastefnu sveitarfélagsins en leggur sérstaka áherslu á gott samstarf við heimilin, grenndarsamfélagið og umhverfið. Skólinn vill auk þess skapa sér sérstöðu með öflugu nýsköpunar- og frumkvöðlanámi. Grunnskólinn austan Vatna vill að samfélagið og nemendur geti verið stolt af skólanum og umhverfi sínu.

Stefna og leiðir

Nám og kennsla

Grunnskólinn austan Vatna leggur áherslu á:

· að starfið mótist af metnaði, samfellu og hvatningu til sjálfstæðra verka, ábyrgðar og aukinnar víðsýni, svo hver og einn fái notið sín á eigin forsendum, í samræmi við hæfileika, þroska og getu.

  • Einstaklingsáætlanir nemenda og einstaklingsnámskrár séu gerðar og nýttar þar sem við á
  • Kennd sé námstækni sem hæfir yngsta stigi, miðstigi og elsta stigi.
  • Í skólanum sé til þekking og mannafli til að sinna öllum nemendum
  • Skólinn sjái til þess að hver og einn nemandi fái þann stuðning og ráðgjöf sem hann þarf
  • Skólinn nýti m.a. þá ráðgjöf sem stendur til boða frá skólaskrifstofu
  • Skólinn sjái til þess að hver og einn starfsmaður fái þann stuðning og ráðgjöf sem hann þarf, jafnt innan sem utan kennslustunda

· að nýta umhverfi okkar í kennslunni, söguna, náttúruna og sveitina.

  • Skólinn taki þátt í heimabyggðarverkefni skólanna í Skagafirði
  • Skólinn vinni að grenndarspili
  • Saga og sérkenni alls héraðsins sé nýtt til kennslu
  • Heimilisfræðikennsla fari að hluta fram í útieldhúsi
  • Lögð sé áhersla á göngu- og vettvangsferðir nemenda, að kynna fyrir þeim staðhætti, fornar sagnir og að leyfa þeim að upplifa ferðina á eigin forsendum
  • Útikennslustofa á Hólum sé nýtt og henni viðhaldið
  • Innsýn í starf fornleifafræðinga Hólarannsóknar sé fengin með vettvangsfræðslu / - ferðum og verkefnavinnu (Hólar)

· að í skólastarfi ríki fjölbreytni í markmiðum og vinnubrögðum. Við val á kennsluaðferðum og viðfangsefnum sé tekið tillit til markmiða sem stefnt er að, aldurs, þroska og námsumhverfis.

  • Fjölbreyttir kennsluhættir
  • Gerð náms- og kennsluáætlana í hverri námsgrein samkvæmt samræmdu formi
  • Sérþekking starfsmanna og foreldra sé nýtt í kennslu
  • Leikræn tjáning og virk þátttaka í viðburðum
  • Markmiðasetning nemenda (Hofsós)

· að bjóða upp á náið samstarf starfsstöðva á faglegum grunni er varðar kennslu og kennsluhætti

  • Reglulegir samráðsfundir kennara
  • Öflug miðlun upplýsinga sem tekur á náms- og kennsluáætlunum, kennsluháttum og öðru faglegu starfi kennara
  • Sameiginleg verkefni – þemadagar

 

Starfsumhverfi og líðan

Grunnskólinn austan Vatna leggur áherslu á:

· að öllum líði vel á eigin forsendum og gagnkvæmt traust og virðing ríki milli manna.

  • Jákvæðir þættir verði gerðir sýnilegri hjá nemendum og kennurum
  • Hrósi sé beitt með markvissum hætti
  • Samræmdri lífsleikniáætlun skólanna þriggja með samfellu frá 1. til 10. bekk sé framfylgt
  • Kennarar og starfsfólk ræði málefni nemenda reglulega á starfsmannafundum
  • Nemendur og starfsfólk njóti hvatningar og viðurkenningar fyrir vel unnin störf.
  • Mótaðar verði heildstæðar samskiptareglur

· að skólinn og umhverfi hans skulu vera eins vel búin, örugg og hvetjandi til starfs og náms eins og best verður á kosið, svo skólastarfið geti blómstrað og nemendum og starfsfólki líði vel

  • Innra og ytra umhverfi skólans sé gert hlýlegt í samvinnu við nemendur
  • Vinna nemenda sé gerð sýnileg
  • Vinnuumhverfi sé aðlaðandi og húsnæði, búnaði og tækjakosti sé vel við haldið og endurnýjað eftir þörfum. Gott starfsumhverfi laðar að gott starfsfólk.
  • Skólinn geri flóttaleiðir sýnilegar og hafi brunaæfingar tvisvar á ári

    · að þar starfi áhugasamt, vel menntað starfsfólk sem hefur velferð nemenda að leiðarljósi

  • Endurmenntunaráætlun sé virk og gerð í samráði við kennara
  • Kennarar og annað starfsfólk sé hvatt til að afla sér frekari menntunar

    Samskipti


    Grunnskólinn austan Vatna leggur áherslu á:

    · að standa fyrir metnaðarfullu skólasamfélagi, í góðu og markvissu samstarfi við heimilin, sem einkennist af kurteisi, tillitsemi og gagnkvæmri virðingu, þar sem foreldrar eru hvattir til aukinnar þátttöku.

  • Virk og tíð samskipti við foreldra
  • Gott upplýsingaflæði sé tryggt með því að senda upplýsingar með bréfum og tölvupósti milli foreldra og skóla
  • Foreldrar séu fengnir inn í félags- og skólastarfið, t.d. með fræðslu eða verkefnavinnu með börnunum sínum
  • Foreldrar og skóli séu samstíga í því að ala börnin upp með „staðarstolt fyrir augum“
  • Náms- og skólakynning í lok september
  • Foreldrar séu meðvitaðir um heimanám nemenda
  • Foreldrar finni sig ætíð velkomna í skólann og geti óhræddir sagt sínar skoðanir á skólastarfinu
  • Dagur nemenda þar sem nemendur skipuleggja verkefni og kennslu fyrir foreldra (Hofsós)
  • Kennaraheimsóknir í september til nemenda 1., 5. og 8. bekkjar, auk nýrra nemenda í öðrum árgöngum (Hofsós)

    · að kurteisi, tillitssemi og gagnkvæm virðing einkenni samskipti þeirra sem í skólanum eru við nám og störf. Virðing sé borin fyrir sjálfum sér, starfi sínu og umhverfi.

  • Skólareglur, viðmið og viðurlög séu skýr
  • Mótuð verði heildstæð lífsleikniáætlun
  • Virk umræða
  • Grenndarkennsla
  • Dyggðaþema (Hólar)

    · að eiga góð samskipti við umhverfi og samfélag skólans

  • Áætlun um samstarf við aðra skóla sé skýr í skólanámskrá
  • Tengsl við atvinnulíf sé viðhaldið
  • Farið sé í vettvangsferðir í fyrirtæki og stofnanir á svæðinu