Ytra mat

Dagana 17. - 19. september 2018 voru úttektaraðilar á vegum Menntamálastofnunar hér í Grunnskólanum austan Vatna við framkvæmd ytra mats. Ytra mat er lögbundið mat af hálfu Menntamálaráðuneytis á framkvæmd skólahalds sem Menntamálastofnun hefur umsjón með. Í nýjum áherslum við framkvæmd matsins kom skýrt fram í kynningarbréfi til skólans að markmið með ytra matinu væri meðal annars að vera skólum hvati til frekari skólaþróunar, styðja stjórnendur og kennara í umbótum á eigin starfi og efla og styðja innra mat og gæðastjórnun skóla. Ekki er gerður samanburður á skólum heldur notaðar samræmdar matsaðferðir þannig að í öllum skólum verði skólastarfið metið með sambærilegri nálgun og á grundvelli sömu viðmiða. Metnir voru þrír lykilþættir sem sérstaklega er rætt um í lokaskýrslu: stjórnun og fagleg forysta, nám og kennsla og innra mat.

Prófíll skólans er tekin saman í skýrslunni með litakóða miðað við eftirfarandi gátlista.

 

Úttektaraðilar tóku saman skýrslu sem kynnt var í skólanum 21. nóvember fyrir starfsfólki skólans, skólaráði, stjórn foreldrafélaga skólans og fulltrúum frá skólaskrifstofu. Í framhaldinu var það í höndum starfsmanna og stjórnenda skólans ásamt fræðsluþjónustu Skagafjarðar að vinna umbótaáætlun út frá skýrslunni og því var lokið í janúar. Skýrslan er ekki birt fyrr er umbótaáætlun liggur fyrir og hún er þá hluti af henni. Skýrslan í heild sinni hefur þó enn ekki verið gerð opinber á vef Menntamálastofnunar en við höfum fengið þau svör að úttektarskýrslur allra skóla sem voru í úttekt á skólaárinu 2018 - 2019 verði birtar á sama tíma. Við megum hins vegar birta skýrsluna fyrir okkar skóla hér á heimasíðu skólans og gerum það hér með. Hér er hlekkur í skýrsluna sem er vistuð á síðunni í gagnabanka. Ytra mat GaV 2018 - 2019.

Við getum verið afar stolt af skólanum okkar miðað við þessa úttekt sem styrkir okkur í að við séum að vinna vel en jafnframt nýtum við góða leiðsögn sem kemur fram í tillögum til úrbóta til að gera enn betur. Lykilþáttum var skipt niður í 16 undirkafla og af þeim fengu allir góða umsögn þar af ellefu umsögnina: „Gott verklag, margir þættir í samræmi við lýsingu á gæðastarfi en möguleikar á umbótum. Meiri styrkleikar en veikleikar“ og fimm þættir umsögnina: „Mjög gott verklag sem samræmist fyllilega lýsingu um gæðastarf“. Þetta má glögglega sjá hér á prófílmynd fyrir Grunnskólann austan Vatna en nánari upplýsingar má skoða í skýrslunni sjálfri.