Ævintýraferð

Nemendur unglingastigs fóru í hina einu sönnu Ævintýraferð í síðustu viku. Ferðin heppnaðist vel í alla staði en Ingunn Marín B. Ingvarsdóttir nemandi í 9. bekk skrifar hér nánar um ferðina:

Miðvikudaginn 14. september vöknuðum við krakkarnir í unglingastiginu og gerðum okkur klár fyrir okkar fyrstu og/eða síðustu Ævintýraferð. Þegar við mættum í skólann smurðum við okkur haug af samlokum (sex á mann) og settum skinkuhorn, snúða og muffins sem við bökuðum deginum áður í poka. Ég þori að veðja að við hefðum getað nært heilt þorp með þessu bakkelsi.
Þegar allir voru tilbúnir og vel klæddir þá var okkur skutlað á Sleitustaði og þaðan gengum við upp Kolbeinsdal að Fjalli, skálanum sem við gistum í um nóttina. Gangan gekk vel, við fengum gott gönguveður og það var gaman að sjá inn í Kolbeinsdal. Þrátt fyrir stutta vegalengd stoppuðum við oft og lengi til að næra okkur...
Húsið á Fjalli var alveg til fyrirmyndar en við vorum búin að búa okkur undir það versta því kennararnir voru búnir að ljúga því að okkur að það væri einungis útikamar í hesthúsinu. Við vorum því mjög hissa þegar við komumst að því að það væri venjulegt klósett inni í húsinu. Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir var ýmislegt brallað, spil, leikir og útivera. Þegar kvölda tók grilluðu kennaralufsurnar handa okkur hamborgara enda allir orðnir svangir (eða þannig). Um kvöldið fórum við síðan í allskonar leiki og röbbuðum við okkar heitt elskuðu kennara. Síðan fóru allir stilltir og prúðir að sofa. Við vorum búin að búa okkur undir ískalda nótt því ekkert rafmagn er í húsinu, klæða okkur í föðurland og ullarsokka og renna svefnpokanum upp að höku. En það var langt frá því að vera kalt á svefnloftinu þar sem við stelpurnar sváfu. Okkur var semsagt kynjaskipt af því að okkar heitt elskaði umsjónarkennari vildi ekki að getnaður ætti sér stað. En hitinn var þvílíkur á svefnloftinu að það var móða á glugganum og sviti rann af hverri einustu stúlku. En við lifðum það af og morguninn eftir vöknuðum við eldsnemma við lætin í Röggu og Tótu sem rifu okkur á lappir til að borða og þrífa húsið.
Því næst var okkur skutlað í Grunnskólann á Hólum en þaðan hjóluðum við í Hofsós. Hjólaferðin gekk vel og allir kepptust um að vera fyrstir (eða á eftir Tótu - það var ekki sjéns að halda í við hana). Það var gott veður, sól og blíða og öllum leið vel (eða allavega mér, veit ekki með hina). Þegar við komum á leiðarenda tóku nemendur og starfsmenn vel á móti okkur og veifuðu íslenska fánanum okkur til heiðurs. Á meðan við létum líða úr okkur í sundlauginni slógu yngri krakkarnir og kennararnir upp veislu fyrir framan skólann þar sem boðið var upp á ýmiskonar gúmmelaði. Þetta var rosaleg ferð og mun ég seint gleyma henni!

Ingunn Marín B. Ingvarsdóttir, varaformaður nemendaráðs.

Í góðum félagsskap

Fyllt á tankinn