Ævintýraferð unglingastigs 2020

Dagana 16.-17. september fóru nemendur á unglingastigi í hina einu sönnu ævintýraferð. Þegar nemendur höfðu tekið til nesti, hjól og nýja gönguskó var ekið með ungmennin sem leið lá í Fljótin. Frá Hraunum gekk hópurinn gömlu póstleiðina yfir Siglufjarðarskarð. Nutu bæði ungir og eldri þessarar fallegu gönguleiðar og nutu útsýnisins. Þegar komið var yfir Siglufjarðarskarð var gengið niður meðfram skíðasvæði Siglfirðinga að Hóli sem var næturstaður hópsins. Eftir að fólk hafði komið sér fyrir á Hóli var skundað í sund til þess að skola af sér mestu gönguþreytuna en sumir virtust hafa meiri orku en aðrir og sýndu hæfni sína í dýfingum, meðan aðrir nýttu sér heilsurækt heimamanna en fundu ekki þungu lóðin. Eftir dýrindis kræsingar að kvöldi lagðist hópurinn sáttur til svefns. Síðari daginn sótti langferðabíll ungmennin og fararstjóra og keyrði sem leið lá aftur til Skagafjarðar n.t.t. að Reykjarhóli. Þaðan var hjólað til Hofsóss með örfáum nestishléum. Var hópnum fagnað eins og týndum þjóðhetjum þegar hann renndi í hlað á Hofsóss þar sem ferðin endaði á kaffisamsæti í Höfðaborg. 

Ferðin heppnaðist vel í alla staði og voru ungmennin sér og öðru æskufólki til fyrirmyndar.