Dans- og áhugasviðsvika

Vikuna 21. - 25. nóvember var hin árlega þemavika þar sem boðið var upp á dans og áhugasviðsþema. Allir nemendur skólans komu saman í starfsstöð Hofsóss. Ingunn Hallgrímsdóttir kenndi dansinn og í ár var farin sú leið að starfsfólk skólans útbjó og bauð upp á spennandi og fjölbreyttar smiðjur sem nemendur völdu svo um. Þetta gekk afar vel og ekki annað að heyra á nemendum en að þau hafi verið ánægð með þessa tilbreytingu.

Það sem var meðal annars í boði:

Handavinna 
Nemendur völdu sér verkefni út frá þeirra áhugasviði og miðað við þann tíma sem þeir höfðu í smiðjunni. Nemendur gerðu jólatré úr filtefni, hekluðu fígúrur, saumuðu veski og prjónuðu. Það myndaðist notaleg stemning meðal nemenda og það var unnið, spjallað og hlustað á jólalög allt í bland.


handavinna

Landbúnaður / hestar
Dagurinn byrjaði á umræðum, rætt var um liti íslenska hestsins og sauðalitina. Spiluðu samstæðuspil með sauðfjármörkum sem vakti mikla lukku. Eftir morgunmat fóru nemendur í heimsókn í Hof og hittu þar Sigrúnu Rós Helgadóttur reiðkennara og tamningakonu sem sýndi nemendum búið og allt það starf sem þar fer fram. Vatnsbretti, tamning og þjálfun, járningar, skítmokstur og gjafir.

hof

hof hof hof

hof hof hof

hof

Hugguleg heimilisfræði
Nemendur skáru út piparkökur og skreyttu ásamt því að baka hinar ýmsu smákökusortir. Einnig fengu þeir að kynnast brjóstsykursgerð og útbjuggu sumir fléttaða jólapoka undir gúmmelaðið.

 


Grúsk og heimsókn á Vesturfarasetrið

Dagurinn byrjaði á að fara í skemmtilega og fróðlega heimsókn á Vesturfarasetrið, þar sem nemendur fengu meðal annars að skoða úlfaskinn - það vakti mikla lukku. Eftir morgunmat dunduðu þau sér í jólahefti og hlustuðu á jólatónlist, fræddust um fugla og horfðu á skemmtilega dýralífsmynd um skógarbirni, kattardýr og apa.

Listasmiðja
Nemendur höfðu frjálsar hendur og gátu valið sér verkefni eftir þeirra áhuga, sum þeirra bökuðu og aðrir bjuggu til trölladeig, það var mikið föndrað og útbúið allskonar muni eins og hárspangir, spegla, kort, origami og fleira. Harpa Kristinsdóttir kom til okkar og tók nemendur í leiklistarupphitun og spuna.

Jóga, núvitund, slökun og sundlaugarfjör
Jógaæfingar, slökun og öndunaræfingar liggjandi á jógadýnu með teppi. Nemendur fóru svo í sundlaugina og prófuðu að fljóta með flothettu í heita pottinum á Hofsósi. Virkilega notalegt að loka augunum og njóta í núinu.

Spilasmiðja, borðspil og leikir
Nemendur spiluðu hin ýmsu spil. Vinsælast var Uno flip, Kani, Búbbla, Heilaspuni og bókstafaleikur.

Steinamálun og skartgripagerð
Nemendur máluðu allslags listaverk á steina og bjuggu til skartgripi með resin, perlum og kuðungum. Þetta var mjög notaleg smiðja þar sem nemendur náðu að sökkva sér í sköpun og spjalla saman við iðju sína.

Opin smíðastofa 
Nemendur fengu frjálsar hendur, margir unnu áfram með verkefni sín, einn nemandi hafði gert tertuspaða í fyrra en tók hann með sér í smiðjuna og útbjó skaft á spaðann.

Málmsmíði / rafmagn
Farið var í heimsókn á verkstæðið til Lindu Rutar og Fjólmundar þúsundþjalasmiðs og málmsmíðameistara. Nemendur klæddu sig í öryggisfatnað og fengu að smíða sér kertastjaka og suðu nafnið sitt á platta. Þar að auki kom Garðar rafvirki í heimsókn og fræddi þau vel um allt það sem kemur að rafmagni. 

Kökubakstur
Þessi smiðja var sannkölluð veisla. Hrærivélar, kökukefli, skurðarbretti og þeytarar fengu sko að finna fyrir því! Nemendur bökuðu tertur, kökur, muffins, smákökur og brauð og bjuggu til brjóstsykur. Allir fóru með eitthvað heim með sér og sumum tókst meira að segja að hræra í þrjár mismunandi uppskriftir.

 

Útivist 
Nemendur fóru í gönguferð, óðu ár, unnu með snjóflóðaýli og fengu kynningu á staðalbúnaði í útivist. Stoppað var í nestispásu, borðað hafragraut sem var eldaður á prímus og fengu síðan heitt kakó.

Íþróttaval, fjölbreyttar íþróttir 
Mögnuð tíð og þess vegna var tilvalið fyrir nemendur að koma með reiðhjólin sín í skólann. Þegar leið á morguninn og fór að birta til fóru nemendur í hjólaferð. Auk þess fóru nemendur í sund, fótbolta og handbolta.

Hárgreiðsla og förðun 
Júlía Þórunn sýndi nemendum grunnatriði í hármótun og réttu handtökin þegar krulla og slétta á hár. Fræddi nemendur um hárumhirðu. Ása Pálsdóttir og Bylgja Pedersen komu og fóru yfir helstu undirstöðuatriði í förðun, húðumhirðu og nemendur fengu að leika sér með litapallettur og farða hvor aðra.