Draugagangur í gamla skólanum

Í lok október unnu nemendur miðstigs með hrekkjavökuna og allan þann óhugnað sem henni fylgir. Lokaafurð þemans voru stuttmyndir sem nemendur útbjuggu í hópum. Þeir gerðu handrit, sömdu tónlist, tóku upp, klipptu, hönnuðu og saumuðu búninga og unnu fjölmarga leiksigra á stuttum tíma. Stuttmyndirnar voru vægast sagt stórkostlegar og oft á tíðum mjög spaugilegar. 

Inn í þetta fléttuðust svo skemmtileg verkefni um draugasögur á Íslandi, t.d. Sólveigu á Miklabæ, umræður um geðsjúkdóma og fleira. Nemendur fengu svo að vinna með grasker, skáru út úr þeim, þurrkuðu fræin og gerðu graskersböku.

Á covid-tímum hafa orðið smávægilegar breytingar á skólastarfinu. Morgunmaturinn er framreiddur í heimilisfræðieldhúsinu og nemendur borða morgunmatinn í sætunum sínum. Nemendur kynntust grímuskyldu og stóðu sig sérstaklega vel í því verkefni. Það var mikið gleðiefni þegar mátti leggja grímurnar til hliðar og sjaldan hafa bros nemenda skinið eins skært og allir önduðu örlítið léttar.