Fjölbreyttir dagar hjá miðstiginu

Skóladagarnir hjá miðstigi hafa verið fjölbreyttir upp á síðkastið. Í vikunni fengum við Ingva Hrannar í heimsókn og hann hjálpaði okkur að nýta tölvutæknina í verkefnum okkar. Við vorum öll ánægð með að fá hann í heimsókn og finnst við hafa lært mikið og eignast fleiri verkfæri í verkfærakistuna.

Í íslensku hafa nemendur verið að lesa bók um starfsemi björgunarsveita. Okkur fannst passa einstaklega vel að ræða þessi mál í kjölfar áramóta, flugelda og náttúruhamfaranna á Seyðisfirði sem hafa verið mikið í umræðunni. Í vikunni bjuggu nemendur  til sínar eigin björgunarsögur. Sögurnar voru gerðar í forritinu Slides og voru í anda  Ævars vísindamanns þannig að á hverri glæru gat maður valið um tvo mismunandi kosti. Til þess að gera svona sögur þurftu nemendur að læra nýjar aðgerðir í forritinu. Aðgerðir sem eiga örugglega eftir að nýtast þeim á skapandi hátt í áframhaldandi námi.

Nemendur hafa verið að læra um kynþroskaskeiðið og hvaða breytingar fylgja því fyrir stráka og stelpur andlega og líkamlega. Í vikunni sömdu nemendur svo ástarsögur.  Fyrst gerðu nemendur hugtakakort, ákváðu sögupersónur, sögusvið og söguþráð. Því næst fengu nemendur val um að gera  stop motion mynd eða toontastic mynd. Í báðum tilfellum voru forrit í ipödunum nýtt.

Í stærðfræðinni hafa nemendur verið í rúmfræðikafla þar sem búið er að taka fyrir hluti eins og lengdir, hornfræði, ummál, flatarmál, rúmmál svo fátt eitt sé nefnt.  Ingvi Hrannar kom inn í tíma til okkar og hjálpaði okkur við að samtvinna kennslu í stærðfræði og upplýsingatækni með hjálp Sphero forritunarkúlna.  

Nemendur skelltu sér í golf, þar sem forrita átti kúlurnar þannig að þær fylgdu ákveðinni braut og enduðu á vissum stað.   Þar átti að láta kúlurnar fara ákveðna vegalengd á ákveðnum tíma og taka beygjur eftir ákveðnum gráðum.  Ekki  var annað að sjá en að þetta hafi vakið mikla lukku hjá krökkunum.

Í upplýsingatækninni hefur nemandi í deildinni nýtt sér mjög skemmtilegt hreyfimyndaforrit sem heitir Flipaclip. Hann kenndi samnemendum sínum að nota forritið  sem þeir hafa nú líka nýtt í verkefnum sínum og þannig er samþætting á greinunum stærðfræði, upplýsingartækni og myndmennt.

Í heimilisfræðitíma vikunnar elduðu krakkarnir kjúklingarétt og bökuðu naanbrauð. Uppskrift naan-brauðinu kemur frá Jóa Fel og vakti mjög mikla lukku. Við leyfum uppskriftinni að fylgja með hér fyrir neðan.

Naan brauð Jóa Fel
1 pk þurrger
2,5 dl volgt vatn
500 gr. hveiti
80 gr jógúrt (hægt að nota sýrðan rjóma)
1 tsk salt
1 tsk cummin (má sleppa)

Öllu blandað saman í hrærivélarskál, hnoðað vel og lengi með króknum. Látið hefast í ca. klukkustund. Klipið niður í passlega parta og flatt út með kökukefli. Hvert brauð stungið með gafli og að lokum steikt á heitri pönnu upp úr olíu. 

Gott að smyrja með kryddsmjöri.