Fréttir af miðstiginu á Hofsósi

Byrjun skólaársins hefur verið viðburðarík hjá miðstiginu á Hofsósi. Ýmislegt hefur verið brallað. Við höfum notið hauststunda í skógræktinni, kveikt eld á nýja eldstæðinu okkar sem við bjuggum til í fyrra og grillað sykurpúða og pylsur. Umhverfi Hofsóss hefur verið nýtt til ensku og náttúrufræðikennslu. Nemendur hafa farið í göngutúra og rætt um umhverfi sitt á ensku. Stundum hafa þeir fundið eitthvað áhugavert svo sem bláskeljar, jurtir og ýmis skordýr sem tekið hefur verið með inn í skólastofu og skoðað nánar í víðsjá. Efnafræðitilraunir hafa einnig verið gerðar bæði úti og inni. Nám þarf ekki allt að fara fram í skólastofu.  Við hlökkum til komandi veturs og ætlum að nýta hvert tækifæri til náms og góðra samverustunda.