Fréttir af unglingastigi

Stuttmyndagerð í geðræktarþema
Síðustu vikur hefur verið geðræktarþema hjá unglingastiginu í Grunnskólanum austan Vatna. Hafa hinar ýmsu námsgreinar verið tengdar við andlega heilsu og sjúkdóma. Í tungumálakennslunni höfum við unnið með orðaforða og hugtök sem tengjast viðfangsefninu svo eitthvað sé nefnt.

Í íslensku hefur bókin Englar Alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson verið fyrirferðarmikil síðustu vikur. Nemendur vinna þessa dagana hörðum höndum að gerð stuttmynda byggða á köflum bókarinnar. Nemendur hafa nýlokið við að lesa bókina og hafa jafnóðum unnið verkefni til þess að ramma inn lesskilning, auk þess hafa skapast skemmtilegar umræður við lesturinn um aðbúnað og líf andlega veiks fólks fyrr og nú. En bókin er skálduð ævisaga Pálma Arnar Guðmundssonar bróður Einars höfundar bókarinnar sem átti við andleg veikindi að stríða. En lífshlaup hans varð kveikjan að bók Einars. Í nálgun unglingastigsins á andlegum veikindum og efnistökum bókarinnar hafa skrif Einars Más verið höfð að leiðarljósi er hann minntist bróður síns eftir andlát hans, en Einar skrifar á eftirfarandi hátt um veikindi bróður síns í minningargrein: ,,Eitt er sjúkdómurinn sjálfur, annað er viðhorfið gagnvart honum. Fótbrotinn maður getur vissulega þjáðst en þegar hann rís á fætur er honum tekið opnum örmum; og við kvefaða menn er ekki að sakast. En sá sem á við geðræn vandamál að stríða á oft erfiðara utan sjúkdómsins en innan hans”. Eftir að lestri á bókinni lauk hafa nemendur unnið í 4-5 manna hópum við gerð stuttmyndana, en hóparnir vinna nú þegar þessi orð eru skrifuð að handriti stuttmynda sinna. Verður fróðlegt að sjá hvernig nemendahóparnir munu túlka mismunandi hluta bókarinnar í handritaskrifum sínum og sjá frumleika unga fólksins í kvikmyndagerð.