Í síðustu viku fengum við þau gleðilegu tíðindi að lag Írisar og Bettýjar, Aftur heim, var valið áfram í Málæði. Annað árið í röð er GaV því einn af þremur skólum á landinu sem er valinn til að vinna með þekktum tónlistarmönnum að frekari texta- og lagasmíð. Á morgun, þriðjudag, koma þau Birgitta Haukdal og Vignir Snær ásamt tökumanni frá RÚV til okkar til að vinna áfram með lagið og textann. Allir nemendur á unglingastigi munu taka þátt í þeirri vinnu.
Hinn hluti verkefnisins í Málæði er að semja texta sem tónlistarfólkið Klara Elías og Vignir Snær Vigfússon semja nýtt lag við. Allir nemendur á unglingastigi tóku þátt í þeirri vinnu og sendu inn texta um ástina, símanotkun, kynáttunarvanda og fleira. Því verður spennandi að heyra lokaafurðina í sjónvarpsþætti á RÚV á degi íslenskrar tungu.
Við í Grunnskólanum austan Vatna erum að sjálfsögðu gríðarlega stolt af okkar fólki og hlökkum til að sjá þessi lög taka flugið.