Grunnskólinn austan Vatna tók í ár þátt í fallega verkefninu Jól í skókassa. Verkefnið er alþjóðlegt og miðar að því að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til að tryggja að öll börnin fái svipaðar gjafir er mælst til að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa.
Í ár verða skókassarnir sendir til Úkraínu, þar sem búa um 37 milljónir manna. Ástandið þar er víða erfitt vegna stríðsástands og mikils atvinnuleysis. Skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.
Nemendur Grunnskólans austan Vatna tóku virkan þátt í verkefninu. Þeir komu með gjafir í skólann, og hvert kennsluteymi fékk það hlutverk að flokka gjafirnar, raða í kassa og pakka skókössunum vandlega inn í jólapappír.
Í ár sendi GaV 22 gjafir sem fóru í safnaðarheimilið á Sauðárkróki, þaðan sem þær verða fluttar til Úkraínu til barna og fjölskyldna sem minna mega sín. Með þátttöku okkar í þessu hlýja og fallega verkefni sýndu nemendur samkennd, kærleika og vilja til að gleðja aðra.
Við þökkum öllum nemendum, foreldrum/forsjáraðilum og starfsfólki sem tóku þátt og hjálpuðu til við að skapa jólagleði fyrir börn í neyð.