Haustið 2020 á yngsta stigi á Hofsósi

 

Við byrjuðum skólaárið á því að vinna með nánasta umhverfi nemenda sem koma af mjög stóru svæði og úr mörgum sveitum. Við gerðum veggspjald sem táknaði skólasvæðið og nemendur staðsettu heimili sín á því og merktu inn á það nöfn sveitanna: Fljót, Sléttuhlíð, Höfðaströnd, Óslandshlíð, auk Hofsóss og Sleitustaða. Við lærðum líka nöfn á kennileitum eins og Ennishnjúkur, Drangey, Þórðarhöfði og Tindastóll. 

Við tókum næstum því  tvo mánuði í þemavinnu um hafið. Fyrst var fjaran könnuð og unnið með það sem við fundum þar í skólanum, bæði í myndmennt og náttúrufræði.

Síðan var farið að huga að því hvað væri í sjónum og fræðast um fiska, spendýr í sjó og sjófugla. Við lásum nokkrar sögur sem tengjast efninu og unnum ýmis ritunarverkefni. Við hlustuðum á tónlist tengda hafinu og sungum lög um hafið. Undir lokin á þessu þema fórum við á sjó og veiddum alls 10 þorska. 

    

Í heimilsifræði elduðu krakkarnir fisk og kartöflur sem þau ræktuðu í sumar. Þessi eldamennska tók tvo daga því við byrjuðum á byrjuninni, fyrri daginn fundu nemendur uppskrift, skrifuðu hana niður, könnuðu hvað til var af hráefnunum í heimilisfræðistofunni, skrifuðu síðan innkaupalista og fóru í búðina og keyptu það sem vantaði. Seinni daginn var eldað og borðað.
   
Við höfum líka verið að vinna með árstíðirnar í haust og unnið ýmis verkefni bæði í myndmennt, tónmennt og í öðrum námsgreinum. Eftir að við færðum skólastofuna okkar í Höfðaborg höfum við verið að vinna með bókina “ Halló heimur “ sem er afar skemmtileg viðbót við umræðuna. Við höfum lagt áherslu á árstíðir, veður, litablöndur, ljós og skugga og gert allskonar tilraunir. Við förum út og skoðum veðrið í byrjun dags og ræðum hvort það sé frost, hlýtt, skýjað og þess háttar. Þetta skapar oft skemmtilegar umræður og opnar augun þeirra til að taka eftir nærumhverfi sínu í hverri árstíð. 
    


Einnig höfum við gert tilraunir með vatn í ólíku formi, frosið og ófrosið. Við létum litað vatn í nokkur glös og á milli þeirra voru tóm glös. Pappírsþurrkur drukku litinn upp í sig og fluttu vatnslitinn  yfir í tóma glasið. Þannig gátum við séð hvernig litar blandast, einnig gerðum við tilraunir með snjó/klaka. Við rannsökuðum hvort bráðnaði fyrr, klaki eða snjór. Við settum salt, hveiti, sykur, heitt kaffi, hárblásara, trélit og annað sem okkur datt í hug ofan í glösin. Niðurstaðan var að kaffið og hárblásarinn virkaði best þ.e. hiti flýtti mest fyrir bráðnun. 

Þetta fannst þeim mjög skemmtilegar tilraunir. 
  

  

Núna í lok þessarar viku höfum við verið að vinna með ljós og skugga í allskonar útfærslum út frá ljósi, skuggum okkar, skugga af hlutum eða orðaskuggum. Við erum svo heppin að hafa allar þessar ljósagræjur í nýju stofunni okkar og ljósamanninn með okkur. Þau fengu að sjá  kastara félagsheimilisins og hvernig litir í kösturum blandast ólíkt grunnlitunum þremur (gulum, rauðum og bláum). 
    
Til að ljúka þessu verkefni útbjuggju nemendur persónur úr pappa til að nota í skuggaleikhús. Í lokin sömdu fjórir hópar sitt leikrit til að setja upp fyrir bekkinn, æfðu það og sýndu. Þetta var mjög skemmtilegt og fjölbreytt. Sýningin fór fram á sviðinu og voru allir áhorfendur mjög sáttir. 

Þó þetta sé það helsta sem við höfum verið að vinna með í haust hefur ýmislegt annað verið brallað inn á milli. Við helguðum t.d. hrekkjavökunni heila viku og tókum vel á móti fyrsta snjónum þegar hann rétt sýndi sig.
   
Brugðið á leik á hrekkjavöku. 

Fyrsti snjórinn var nýttur vel.