Selt til góðs!

Selt til góðs

Nemendur á unglingastigi hafa haft umhverfisvæna skiptislá í stofunni hjá sér í að verða tvö skólaár. Nemendur koma með föt á slána og þar fær fatnaðurinn framhaldslíf í nýjum höndum og hjá öðrum eigendum. Upp kom sú hugmynd að útfæra þetta enn frekar og halda flóamarkað til styrktar nemendafélagi skólans.

Krakkarnir sönkuðu að sér notuðum fatnaði, húsmunum, leikföngum og öðru dóti og héldu markað í grunnskólahúsnæðinu á Hofsósi í desember. Þetta var gert í góðu samstarfi með Lindu Halls sem var einnig með jólamarkað í húsinu. Krakkarnir stóðu vaktina á sínum markaði í tvær helgar og höfðu mikla ánægju af því að draga úr kolefnisspori Hofsósinga og nærsveitamanna með þessum hætti. 

Nemendafélagið gaf helming ágóðans til Hjálparstarfs kirkjunnar og Linda gaf 35.000 kr. til sama málefnis og saman keyptu þau nokkur gjafabréf undir heitinu ,,Gjöf sem gefur”. Gjafabréfin sýna fram á hvað hægt er að kaupa fyrir styrkféð, en það sem var valið að kaupa var eftirfarandi: 

Kamar - 11.700 kr.

Plógur - 8.000 kr.

Húsaskjól - 32.000 kr.

Geit - 4.700 kr. 

Skólagögn - 4.000 kr. 

 

Þessar gjafir fara til munaðarlausra barna í Úganda með því markmiði að auka hreinlæti og bæta aðgengi að menntun. Féð fyrir plógnum fer til bændafjölskylda í Eþíópíu sem búa á miklum þurrkasvæðum og hjálpar til við að tryggja fæðuöryggi. 

 

Hægt er kaupa ,,Gjöf sem gefur” á https://gjofsemgefur.is/