Skipulag á skólahaldi vegna Covid-19

Eftirfarandi skipulag hefur verið útbúið í ljósi nýrrar reglugerðar um takmarkanir á skólahaldi vegna COVID-19 sem gildir frá og með mogundeginum 3. nóvember til og með 17. nóvember. Að leiðarljósi hefur verið haft að skólastarf raskist eins lítið og kostur er miðað við þau fyrirmæli sem okkur eru gefin.

Á Hólum getum við haldið nær óbreyttu kennslufyrirkomulagi en skilið verður milli stofnanna grunn- og leikskóla og matartímar þeirra stofnana verða ekki á sama tíma. Íþróttir í sal og sund fellur niður og sameiginlegir tímar með leikskóla, bæði útikennsla, lestur í leikskóla og skólahópsheimsóknir. Gæsla eftir skóla verður í skólanum en ekki í samstarfi við leikskólann. Skólatími raskast óverulega en breytist þó þannig að mánudaga og fimmtudaga er skóli frá kl. 8:00-14:20 en þriðjudaga, miðvikudaga og föstudaga er skóli kl. 8:00-13:15.

Á Hofsósi skiptum við skólanum í þrjár aðskildar einingar með svipuðum hætti og í mars en nú eru teymin til og raskast því kennsluáætlanir og utanumhald mjög lítið. Skóli hefst á Hofsósi alla daga kl. 8:30 og lýkur kl. 13:55. Félagsheimilið verður aftur tekið undir kennslu fyrir einn hóp til að geta búið til aðstæður fyrir tveggja metra bil og hámark 10 starfsmenn á hverju svæði. Sú breyting er hins vegar að nemendur yngstu deildar koma til með að nýta þá aðstöðu. Ekki er gert ráð fyrir að bjóða upp á gæslu í lok skóladags vegna þrifa í skólanum en ég bið foreldra að hafa samband ef það er mjög íþyngjandi ráðstöfun svo við getum reynt að finna lausnir á því. Skólinn á Hofsósi verður líkt og venjulega opnaður klukkan 8:00 á morgnana en við mælumst til að nemendur mæti ekki í skólann á morgnana fyrr en rétt áður en kennsla hefst nema í þeim undantekningartilfellum þegar foreldrar þurfa að mæta fyrr í vinnu. Nemendur mæta í skólann við sinn inngang og fara beint inn í það kennslurými sem þeim tilheyrir

1. – 3. bekkur
Verður kennt í félagsheimilinu Höfðaborg. Nemendur ganga inn að austanverðu og nýta salernisaðstöðu þar. Þessi hópur fær mat úr mötuneytinu inn í aðalsalinn og borðar þar klukkan 12:35.

5. – 7. bekkur
Nemendur ganga inn um dyr að norðanverðu. Þeirra svæði er efri hæð í gamla skóla; myndmenntastofa, heimilisfræðistofa, bókasafn og gangur. Í frímínútum hafa nemendur aðgang að holi þar sem borðtennisborðið er. Þessi hópur hefur aðgengi að „kvennasalerninu“ niðri. Morgunmatur verður borðaður í kennslustofum en í hádegismatur hjá þessum hóp verður kl. 12:35 í norðursal félagsheimilisins. Þurrkað verður af borðum og sprittað áður en næsti hópur kemur í mat.

8. – 10. bekkur
Nemendur ganga inn um aðalinngang skólans og hafa aðgang að sinni stofu og tveimur öðrum stofum á ganginum þar á meðal skólabókasafninu. Þessi hópur hefur aðgengi að „karlasalerninu“. Þessi hópur fær morgunmat í sínum stofum en hádegismat kl. 12:05 í norðursal félagsheimilisins.

Eins og á Hólum falla íþróttir og sund niður á Hofsósi en einhver hreyfing verður daglega hluti af stundatöflu í öllum hópum. Samgangur verður ekki milli hópa í frímínútum en skipt verður milli daga hvaða hópur hefur aðgang að leiktækjum á skólalóð. Á Hólum er einungis einn hópur og því á þetta ekki við þar.