Skólaferðalag unglingastigs 2021

Miðvikudagurinn 26. maí síðastliðinn heilsaði Skagfirðingum bjartur og fagur. Ekki versnaði útlitið þegar Leó frá Mallandi renndi í hlaðið við skólann á Hofsósi á langferðabíl sínum, því framundan var skólaferðalag unglingastigs Grunnskólans austan Vatna. Ferðinni var heitið suður yfir heiðar þar sem höfuðborgarsvæðið og nærumhverfi skyldi kannað. Á leiðinni suður viðruðu ferðalangar sig með því að skokka upp á Grábrók við Hreðavatn. Þegar til höfuðborgarsvæðisins var komið byrjuðu unglingarnir á því að skola af sér ferðarykið með sundferð í Árbæjarlaug sem er skammt frá skátaheimilinu þar sem gist var meðan á ferðinni stóð. Eftir sundferð fór hópurinn í Grafarvoginn og skemmtigarðurinn Mjólkurhristingur og flatbaka heimsóttur. Þar sýndu nemendur og aðrir mikla takta í keiluspili og pizzuáti. Á fimmtudeginum byrjuðu nemendur á því að skoða Raufarhólshelli í Leitahrauni Ölfushrepps og fengu fræðslu um jarðfræði hellisins. Þaðan var skundað til Stokkseyrar þar sem nemendur sigldu á kajökum við tjörn bæjarins. Sýndu nemendur fram á töluverða siglingatækni og miðað við hæfileika ungmennanna er ótrúlegt að Ásbirningar hafi tapað Flóabardaga fyrir Þórði kakala. Föstudaginn 28. maí einkenndist af mikilli hæð og spennu. Hófst dagurinn á ferð í Adrenalíngarðinn við Nesjavelli þar sem nemendur klifruðu af fyllsta öryggi upp í hæstu hæðir. Dagurinn endaði svo á flugi yfir Ísland við Granda þar sem hópurinn flaug með hjálp myndbands og hreyfanlegra sæta yfir stórbrotna náttúru landsins. Síðasti dagur ferðalagsins  laugardagurinn 29. maí hófst með frægðarför nokkurra ungmenna í verslunina Krónuna. Nemendur á unglingastigi hafa aukið þekkingu sína á umhverfisvernd í vetur. Með þá kunnáttu í farteskinu tóku væntanlegir viðskiptavinir með sér Bónus innkaupakerru til þess að koma í veg fyrir óþarfa sóun á umbúðum. Eftir vel heppnuð innkaup lagði hópurinn af stað aftur á gistiheimilið með vörurnar í innkaupakerrunni. Eitthvað sá lögreglan athugavert við ferðir umhverfissinna því leiðangursmenn voru stöðvaðir. Líklega hafa laganna verðir haft athugasemdir við stílbrot kauphéðnanna með Krónuvörur í Bónuskerru og svo hafði farþegi bæst í kerruna sem hafði ekki leyfi fyrir farþegaflutningum. Annars var síðasti dagurinn rólegur þar sem ferðalangar heimsóttu verslunarmiðstöðina Kringluna og hittu vini og vandamenn eftir langan aðskilnað vegna heimsfaraldursins. Á laugardagskvöldinu keppti hluti hópsins í úrslitum Skólahreystis og bekkjarfélagar fylgdust spenntir með á breiðtjaldi í skátaheimilinu. Þó lagt hafi verið heim á leið seint á laugardagskvöldi vantaði ekki líf og fjör í rútunni. Mikið var um söng og gleði sem fararstjórar töldu dvína á Holtavörðuheiðinni, en því var ekki að heilsa því enn dunaði tónlistin þegar rútan renndi aftur í hlað við skólann á Hofsósi aðfaranótt sunnudags. Þrátt fyrir tónlist, söng og Bjarmalandsför í verslun þá voru skagfirsku ungmennin sér og öðru æskufólki til fyrirmyndar og hafði okkar skeleggi bílstjóri Leó orð á því að þetta væri besta skólaferðalag sem hann hafði upplifað. 

Gústi og Tóta.