Í dag fengu nemendur á unglingastigi heimsókn frá fræðsluteymi skrifstofu Alþingis. Starfsmennirnir settu upp Skólaþing fyrir nemendur en markmið verkefnisins er að efla lýðræðisvitund, fræða nemendur um störf Alþingis og veita innsýn inn í dagleg störf þingmanna.
Nemendur fóru í hlutverkaleik þar sem þeir settu sig í spor þingmanna og fylgdu reglum um starfshætti Alþingis. Nemendum var skipt í fjóra ímyndaða stjórnmálaflokka, en allir höfðu þeir ólík stefnumál og þurftu nemendur að taka ákvarðanir út frá stefnu flokksins og svo eigin sannfæringu. Lagt var fram ímyndað frumvarp um herskyldu, unnar breytingatillögur, kosið um þær og að lokum var gengið til atkvæðagreiðslu þar sem sumir þingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu með skotheldum rökum. Eins og sjá má var góð þátttaka í atkvæðagreiðslunni og allir þingmenn mættir í vinnuna þennan daginn. Nemendur GaV höfnuðu að lokum frumvarpi um atvinnuher á Íslandi.
Að lokum fengu allir nemendur spilastokk að gjöf, en hann var gefinn út í tilefni af Kvennaárinu. Á stokknum eru myndir af þeim konum sem hafa verið alþingismenn í gegnum tíðina, en alls voru gefnir út þrír stokkar enda eru alþingiskonurnar 140.
Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðu Skólaþings: www.skolathing.is