Þann 15. september hófst Svakalega lestrarkeppnin og stóð hún yfir í heilan mánuð, til 15. október. Nemendur í 1.–7. bekk tóku virkan þátt í keppninni sem er landsátak á vegum List fyrir alla.
Markmið keppninnar er að hvetja nemendur til aukins lesturs með því að safna saman sem flestum lestrarmínútum. Sá skóli sem safnar flestum mínútum hlýtur nafnbótina „Svakalegasti lestrarskóli landsins“ ásamt glæsilegum bókaverðlaunum. Að auki hlýtur einn skóli í hverjum landshluta sérstaka viðurkenningu fyrir sína frammistöðu.
Alls tóku 37 nemendur þátt frá GaV og lásu þeir samanlagt 14.465 mínútur yfir keppnistímabilið – sem er virkilega flott frammistaða.
Sigurvegarar keppninnar verða tilkynntir á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember, í sjónvarpsþættinum Málæði á RÚV. Við hvetjum alla til að fylgjast með!
Svakalega lestrarkeppnin er fyrst og fremst sameiginlegt og skemmtilegt átak sem styrkir lestrarfærni og eflir ánægju nemenda af lestri. Við hjá Grunnskólanum austan Vatna erum stolt af þátttöku okkar og óskum öllum nemendum til hamingju með frábært lestrarátak!