Vika íslenskunnar er ný hefð í mótun í Grunnskólanum austan Vatna

 Vika íslenskunnar er ný hefð í mótun í Grunnskólanum austan Vatna

Í næstu viku munum við halda hátíðlega upp á Dag íslenskrar tungu, en í ár tvinnum við saman viku íslenskunnar og dansviku með Ingunni danskennara. Þannig sköpum við lifandi, skapandi og fjölbreytta menningarviku þar sem dans, íslenska og samvinna nemenda spila lykilhlutverk.

Við erum að vinna í því að móta nýja hefð í kringum dag íslenskrar tungu en frumraunin var í fyrra. Í næstu viku frá mánudegi til fimmtudags vinna nemendur fjölbreytt verkefni í íslensku ásamt því að fara í danstíma í Höfðaborg. Vikan endar svo með opnu húsi í skólanum á fimmtudag kl. 14:00–15:25, þar sem foreldrar, forsjáraðilar og aðrir velunnarar skólans eru hjartanlega velkomnir.

Á opnu húsi verður boðið uppá fjölbreytta dagskrá á sal í samstarfi við Tónlistarskóla Skagafjarðar. Einnig heimsóknir í kennslustofur þar sem gestum gefst kostur á að kynna sér verkefnavinnu nemenda. Í boði verða leikir, þrautir og verkefni tengd íslensku sem gestir geta spreytt sig á. Þjóðlegar veitingar verða á borðum ásamt kaffisopa og djúsi. Nemendur skólans hafa unnið að því að undirbúa veitingarnar síðustu daga í heimilisfræði. 

Við hlökkum til að taka á móti gestum og fagna íslenskri tungu með fjölbreyttri dagskrá.

Málæði - „Aftur heim“ 

Að lokum viljum við hvetja alla til þess að kveikja á sjónvarpinu á sunnudagskvöldið 16. nóvember kl. 19:45, þegar lagið „Aftur heim“ eftir Bettý Lilju og Írisi Lilju verður frumflutt. Lagið þeirra komst áfram í Málæði, en þau Birgitta Haukdal og Vignir Snær komu í skólann í september og unnu með nemendum að útfærslu lagsins.

Við erum afar stolt af nemendum okkar í GaV og vonumst til að sem flestir sjái sér fært að horfa á þáttinn á morgun og kíkja svo á okkur í heimsókn á fimmtudaginn.

Hér má sjá stiklu fyrir þáttinn en hann er á morgun klukkan 19:45 á RÚV:

https://www.facebook.com/reel/2116771219058922