Viðbrögð við covid smitum

Kæru foreldrar / forráðamenn

Smitrakningarteymi hefur um helgina verið að vinna, í samstarfi við skólann, að rakningu þar sem smit innan skólans eru nokkur á Hofsósi og tengjast öllum deildum. Niðurstaðan er sú að við komumst ekki hjá því að allir nemendur og starfsmenn í skólanum á Hofsósi verði skráðir í sóttkví næstu viku sem lýkur með sýnatöku næstkomandi föstudag 17. september. Á Hólum eru allir skráðir í svokallaða smitgát og mæta því ekki í skólann fyrr en að hraðprófi loknu.

Fyrri póstar sem sendir voru á afmarkaða hópa um helgina falla því alveg niður þar sem þessi niðurstaða nær mun lengra. Til að mynda þarf engin á Hofsósi að mæta í hraðpróf í fyrramálið eins og áætlað var fyrir yngsta stigið.

Smitgát er með því sniði að nemendur og starfsmenn þurfa að mæta á mánudagsmorgun á HSN á Sauðárkróki í hraðpróf. Opnað er fyrir sýnatöku kl. 10:30 við sjúkrabíla inngang (sami staður og PCR sýnatakan). Innan klukkutíma á niðurstaða að liggja fyrir og með neikvæðri niðurstöðu mega allir mæta í skólann en sýna fyllstu aðgát og viðhafa sóttvarnir. Það þarf að vera vel vakandi fyrir einkennum og panta þá einkennasýnatöku eftir atvikum. Að fjórum dögum liðnum þarf svo aftur að mæta í hraðpróf en við neikvæða niðurstöðu úr því prófi lýkur smitgát. Nánari upplýsingar um smitgát, sóttkví og heimasóttkví er að finna á covid.is.

Hér eru hlekkir með nánari útskýringu hvað varðar sóttkví og smitgát.

·   Leiðbeiningar fyrir sóttkví: https://www.covid.is/flokkar/sottkvi

·   Leiðbeiningar fyrir almenning varðandi heimasóttkví: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item43365/Leidbeiningar-fyrir-almenning-vardandi-heimasottkvi

·   Leiðbeiningar um smitgát: https://www.covid.is/undirflokkar/smitgat

Athugið að þeir sem heyra undir smitgát þurfa sjálfir að skrá sig (sjá leiðbeiningar um smitgát). Ég mæli eindregið með því að skrá strax í kvöld til að fá örugglega strikamerki fyrir sýnatöku í fyrramálið. Þeir sem þurfa að skrá fleiri en einn einstakling geta gert það með sama símanúmeri.  

Þeir sem falla undir sóttkví þurfa ekkert að gera annað en að kynna sér vel upplýsingar um sóttkví og fara eftir því. Ég sendi allar upplýsingar varðandi skráningu og  þið ættuð að fá staðfestingu á sóttkví með sms á morgun með sýnatökudegi næstkomandi föstudag.

Á morgun mun ég vera í sambandi við kennara og geri ráð fyrir að umsjónarkennarar verði í  framhaldinu í sambandi við sinn nemendahóp varðandi fjarnám í sóttkví.

Ég vona sannarlega að ekki reynist fleiri smitaðir og að þessi varúðarráðstöfun verið til þess að við getum örugg haldið kröftugu skólastarfi áfram að þessari viku lokinni.

Bestu kveðjur, Jóhann