Viðtal við Karl Tómasson sem starfar sem skólaliði við GaV

Greta Berglind nemandi í fjölmiðlavali tók viðtal við Karl Tómasson sem starfar sem skólaliði við GaV.
 
Hvar ertu fæddur og uppalin? Ég er fæddur og uppalinn í Mosfellsbæ. 
Í hvaða skóla fórstu? Varmárskóla
 
Afmælisdagur? 17. ágúst 1964
 
Hvar hefur þú unnið? Ég hef unnið ansi víða og við margt. Ég lærði bókband og er lærður bókbindari, ég vann við það í þónokkuð mörg ár. Svo hef ég unnið við smíðar og bílasölu, ég hef kennt börnum tónlist. Það er bara allt mögulegt sem ég hef brallað um dagana. Ég stofnaði bæjarblað í Mosfellsbæ, Mosfellingur heitir það blað. Það er ennþá starfandi, ég var ritstjóri þess og eigandi. Svo var ég forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ í átta ár. Núna síðast var ég að vinna við íþróttamannvirkin Varmá í Mosfellsbæ. Svo kom ég hingað á Hofsós. Það má náttúrulega geta þess að ég er búinn að starfa sem trommuleikari hátt í 40 ár. 
 
Af hverju komstu hingað til Hofsós? Ætli það sé ekki af því að sonur minn Óli, Sólrún tengdadóttir mín og fjölskyldan þeirra búa hérna og við fórum að heimsækja þau hingað oft á ári. Svo vildu þau endilega að við færum að koma hingað til Hofsóss og núna stefnir allt í það að við ætlum að búa á Hofsósi en við höfum sem sagt verið Mosfellingar ég og konan mín. 
 
Áttu mörg börn? Ég á tvö börn, hann Ólaf sem er að verða 34 ára, og hana Birnu sem er að verða 24 ára. 
 
Kemur þú úr stórum systkinahópi? Já, ætli það ekki teljist í dag frekar stór systkinahópur. Við erum 6 systkini, fimm bræður og ein systir. 
 
Getur þú lýst fullkomnum laugardegi? Þegar maður eldist þá fer maður alltaf að kunna betur að meta rólegan og góðan frídag. Ef þú hefðir spurt mig þessarar spurningar fyrir 20 árum síðan þá hefði ég sagt að fullkominn laugardagur væri að spila með hljómsveitinni minni á einhverjum tónleikum og ferðast um landið. En viðhorf mitt er annað í dag, mér finnst best að vera bara heima með fjölskyldunni. 
 
Ferðast þú mikið? Nei ég get ekki sagt það. En ég hef nú samt farið til margra landa, en það er ekkert sérstakt áhugamál.
 
Hver er stærsta áskorunin sem þú hefur mætt í lífi þínu? Ætli það hafi ekki verið að fá krabbamein og vinna bug á því, það hefur sennilega verið mín mesta áskorun. 
 
Hvernig kanntu við nýju vinnuna? Mjög vel. Ég er búinn að vera að fást við ýmislegt síðan ég kom hérna á Hofsós, ég var aðstoðarmaður í mötuneytinu í Höfðaborg, ég er búinn að vera í sundlauginni, kenna börnum tónlist og núna er ég hérna í grunnskólanum. 
 
Hvað er skemmtilegast í nýju vinnunni? Að vera í kringum öll börnin og starfsfólkið í skólanum. Yfirleitt finnst mér bara mjög gaman að vinna alveg saman hvað ég er að gera. En auðvitað er voðalega gaman að vera í kringum öll þessi börn í skólanum. 
 
Hvað er leiðinlegast í vinnunni? Þetta er nú erfið spurning. Mér finnst nú ekkert alveg rosalega leiðinlegt. Ég er samt ekki að segja að það sé neitt sérlega spennandi að tæma ruslaföturnar.
 
Hver er uppáhalds dagurinn í vikunni? Ég held að það sé laugardagur, frídagur. Þá getur maður gert það sem mann langar til að gera. 
 
Ertu með eitthvað lífsmottó? Já, það er að reyna eftir fremsta megni að sjá björtu hliðarnar og vera jákvæður. 
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? Ég lít björtum augum á framtíðina. Það er náttúrulega stórt skref að flytja hingað á Hofsós og byrja að búa hér en við erum afskaplega spennt að takast á við það. Vonandi á okkur eftir að líða áfram svona vel hérna, þetta leggst að minnsta kosti mjög vel í okkur.